Sætið er farið að hitna undir Gary Neville, knattspyrnustjóra Valencia eftir 0-1 tap gegn Sporting Gijon en þetta var níundi leikurinn í röð í spænsku deildinni án sigurs og er liðið hægt og bítandi að færast neðar í töfluna.
Neville tók við liði Valencia í desember en hann hafði sinnt aðstoðarþjálfarastarfinu með enska landsliðinu ásamt því að vera einn helsti sérfræðingur SkySports.
Voru því margir spenntir fyrir því að sjá hvernig honum myndi ganga í þjálfun en það gengur lítið sem ekkert hjá Valencia þessa dagana.
Hefur liðið leikið níu leiki í spænsku úrvalsdeildinni án sigurs og aðeins nælt í sex stig af 27 mögulegum.
Kom tap dagsins á heimavelli gegn einu af botnliðum deildarinnar, Sporting Gijon, en það er spurning hversu lengi stuðningsmenn Valencia sætta sig við þetta.
