Durant, sem var stigahæstur í liði Oklahoma City með 37 stig, skoraði sigurkörfuna þegar hálf sekúnda var eftir með þriggja stiga skoti.
Orlando jafnaði leikinn í 114-114 þegar lítið var eftir en í staðinn fyrir að taka leikhlé treysti Billy Donovan, þjálfari OKC, Durant fyrir að taka rétta ákvörðun í lokasókninni og það borgaði sig.
Durant stökk upp í þriggja stiga skot með mann í andlitinu og hitti, en gestirnir höfðu svo ekki nægan tíma til að ná lokaskoti og reyna að jafna metin.
Þetta var tólfti sigur OKC í síðustu þrettán leikjum. Liðið er á miklum skriði þessar vikurnar með Durant og Russell Westbrook í stuði, en leikstjórnandinn Westbrook nældi í þriðju þrennuna í röð í nótt þegar hann skoraði 24 stig, tók 19 fráköst og gaf 14 stoðsendingar.
Sigurkörfu Durants má sjá hér að neðan.