Fótbolti

Aron mættur aftur til æfinga hjá Werder Bremen eftir erfið meiðsli

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Jóhannsson þarf að komast aftur út á völlinn til að hjálpa Brimarborgurum.
Aron Jóhannsson þarf að komast aftur út á völlinn til að hjálpa Brimarborgurum. vísir/getty
Aron Jóhannsson, bandaríski landsliðsframherjinn úr Grafarvoginum, sneri aftur til æfinga hjá þýska liðinu Werder Bremen á þriðjudaginn eftir margra vikna hlé.

Aron hefur verið meiddur í mjöðm og fór í aðgerð í Berlín fyrr í haust. Hann hefur ekki getað æft því rót vandans liggur í náranum.

„Ég er enn meiddur og get ekki gert mikið. Ég er nú í meðhöndlun hjá sjúkraþjálfurum og engu öðru. Þeir vita ekki nákvæmlega hversu langan tíma þetta mun taka hjá mér og það er kannski það sem er erfiðast við þessi meiðsli,“ sagði Aron í viðtali við Vísi í janúar.

Aron var orðinn fastamaður í liði Bremen áður en hann meiddist, en framherjinn öflugi spilaði fimm leiki í byrjunarliðinu í röð og skoraði tvö mörk áður en hann meiddist í lok september á síðasta ári.

„Mér líður mun betur en áður og ég get gert meira sem er jákvætt. Ég mun bara bæta álagið á næstu vikum til að koma mér aftur í form. Ég er loksins komnin aftur í gang,“ segir Aron á heimasíðu Werder Bremen.

Liðið þarf svo sannarlega á Aroni að halda fyrr en seinna því það er í 16. sæti af 18 liðum eftir 19 umferðir með aðeins 19 stig og í harðri fallbaráttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×