Barcelona lenti í örlitlum vandræðum með botnbaráttulið Las Palmas í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, en höfðu 2-1 sigur að lokum.
Luis Suarez kom Börsungum yfir á sjöttu mínútu, en Willian Jose jafnaði metin fyrir nýliðana fjórum mínútum síðar.
Það var svo brasilíski snillingurinn, Neymar, sem skoraði sigurmarkið á 39. mínútu, en markalaus seinni hálfleikur varð staðreynd.
Barcelona er með níu stiga forskot á toppi úrvalsdeildarinnar, en liðin í öðru og þriðja sæti, Madrídarliðin Atletico og Real, eiga leiki til góða.
Las Palmas er í átjánda sætinu.
