Atli Óskar Fjalarsson var einn tíu leikara sem útnefndur var rísandi stjarna á Berlinale kvikmyndahátíðinni sem nú stendur yfir. Atli var ekki eini Íslendingurinn sem var heiðraður því Jóhann Jóhannsson var heiðraður fyrir framlag sitt til kvikmyndatónlistar og tónskáldið Atli Övarsson hlaut verðlaun fyrir bestu kvikmyndatónlist. Þá hlaut Nanna Kristín Magnúsdóttir verðlaun sem besta leikkonan valin af kvikmyndatökumönnum.
Evrópsku kvikmyndakynningarsamtökin EFP heiðra tíu leikara ár hvert með því að útnefna þá rísandi stjörnur og í ár var Atli Óskar einn þeirra tíu sem hlaut útnefningu. Atli átti stórleik í kvikmyndinni Þröstum eftir Rúnar Rúnarsson. Þetta er annað árið í röð sem Íslendingur hlýtur náð fyrir augum dómnefndarinnar en í fyrra var Hera Hilmarsdóttir meðal þeirra tíu sem hlutu viðurkenningu.
Atli Örvarsson hlaut verðlaun sín fyrir tónlist sem hann samdi fyrir Hrúta, kvikmynd Gríms Hákonarsonar, en myndin hefur farið sigurför um heiminn. Hann hefur meðal annars starfað með Hans Zimmer en fluttist nýverið til Akureyrar og starfar þaðan.
Samtök norrænna kvikmyndatónskálda stóðu fyrir veitingu Hörpu verðlaunanna á hátíðinni. Þeim var komið á laggirnar árið 2009 með það að markmiði að beina kastljósinu að norrænum hæfileikum og að kynna norrænt hæfileikafólk á sviði kvikmyndatónlistar og leiklistar fyrir alþjóðlega kvikmyndageiranum.
Atli Óskar útnefndur rísandi stjarna á Berlinale

Tengdar fréttir

Jóhann og Atli tilnefndir til Hörpuverðlaunanna
HARPA Nordic Film Composer Award verða afhent á kvikmyndahátíðinni í Berlín 15. febrúar n.k. og er þetta í sjötta sinn sem verðlaunin verða veitt.

Þrestir unnu til fernra verðlauna á kvikmyndahátíð í frönsku Ölpunum
Leikstjórinn hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar, Kristalörina.

Leikstjóri Þrasta: „Íslenska kvikmyndasumarið er runnið upp“
Rúnar Rúnarsson segir verðlaunin á San Sebastian-hátíðinni eiga eftir að opna margar dyr.

Bræðurnir úr Hrútum valdir bestu erlendu leikararnir í Palm Springs
Sigurður Sigurjónsson og Theódór Júlíusson stóðu uppi sem sigurvegarar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Palm Springs í kvöld.

Hrútar, Fúsi og Þrestir með yfir tíu tilnefningar
Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían, ÍKSA, boðaði til blaðamannafundar í dag, í Bíó Paradís en þar var tilkynnt hverjir eru tilnefndir til Edduverðlauna árið 2016.