Kyrie Irving, stjarna Cleveland Cavaliers, lenti í óskemmtilegri reynslu síðasta laugardag í Oklahoma. Þá réðust rúmpöddur á hann á Hilton-hóteli.
Þær náðu að bíta körfuboltastjörnuna sem svaf lítið. Hann þurfti að flýja rúmið og endaði með því að sofa þrjá tíma á sófanum í herberginu. Hann lýsti því hvernig hann hefði séð fimm pöddur á koddanum sínum.
Heilbrigðisyfirvöld í Oklahoma lokuðu herberginu daginn eftir á meðan það var sótthreinsað.
„Velferð gesta okkar er efst á blaði hjá okkur og hótelinu þykir mjög leiðinlegt að heyra af þessu,“ sagði í yfirlýsingu frá Hilton.
„Rúmpöddur geta komið hvaðanæva að og koma oft upp úr töskum fólks eða fötum. Við reynum því að skoða herbergin okkar sem oftast.“
Þetta er í fyrsta sinn í þrjú ár sem rúmpöddur finnast á þessu hóteli. Önnur herbergi voru skoðuð en aðeins fundust pöddur á herbergi Irving.
