Magnús Karl ræddi málin í Bítinu í morgun.
Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt ákvörðun háskólaráðs er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Hann hefur sagt að ákvörðun HÍ muni væntanlega kalla á að fjárveitingum verði í auknum mæli beint til skóla á landsbyggðinni á þeirra eigin forsendum.
Magnús Karl segist vel skilja að margir séu svekktir með tilfærslu námsins en það sé ekki stóra málið. Forsætisráðherra þurfi að horfa í eigin stefnu þegar hann tali, stefnu vísinda- og tækniráðs þar sem hann gegnir formennsku.
Að neðan má sjá fjárfestingu í háskólanámi á Íslandi samanborið við nokkrar þjóðir, meðaltal OECD-ríkjanna og Norðurlandanna sömuleiðis. Um er að ræða kostnað per nemenda sem reiknaður er í Bandaríkjadollurum.
Magnús segir orð ráðherrans um að forgangsraða þurfi peningum til landsbyggðarinnar illa ígrunduð og órökstudd. Ákveðnu fjármagni sé úthlutað til háskóla og eigi að forgangsraða þýðir það einfaldlega „á mannamáli að þú ætlar að taka þá frá einum stað og flytja þá annað.“
Fólk innan HÍ sem er að vinna í stefnumótun þurfi að vita hvaða stefnuviðmið séu til grundvallar. Þar liggi beint við að líta til stefnumiða vísinda- og tækniráðs fyrir árið 2014. Þar segi meðal annars að fjármögnun í rannsóknum og þróun í samfélaginu eigi að vera 3 prósent af landsframleiðslu. Menn hafi talið hlutfallið vera 2,7 prósent af landsframleiðslu.

Síðan hafi verið farið að reikna og í ljós komið í apríl í fyrra að Íslendingar voru að verja mun minna hlutfalli. Það hafi komið fram í lítilli frétt á vefsíðu Hagstofunnar. Reyndist hlutfall af landsframleiðslu vera 1,9 prósent. Ekkert hafi heyrst í ráðamönnum vegna þessa.
Þá hafi verið markmið að ná meðaltali OECD landanna þar sem við teljum okkur yfirleitt eiga að vera á meðal efri þjóða. Þar vanti mikið upp á, líklega um 60 prósent. Til að standa jafnfætis Norðurlöndunum vanti nær 130 prósent upp á.
„Menn verða að horfa á umræðu um háskóla í þessu samhengi. Forsætisráðherrann getur ekki farið í landsbyggðarpólitík um svona alvarlegt mál. Á endanum þarf fjármagn til að reka háskóla.“

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir í Fréttablaðinu í dag að menn séu að misskilja forsætisráðherra.
„Mér finnst hann vera að segja hið augljósa. Það þarf að tryggja nægt fjármagn fyrir háskólastarfsemi, hvort sem er úti á landi eða í Reykjavík.“
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði, var harðorður í garð Sigmundar Davíðs í gær og sagði ummælin vera hótanir og minna á stjórnarfar í alræðisríkjum. Hann fagnar hins vegar útskýringum menntamálaráðherra.
„Nú verðum við bara að treysta því að forsætisráðherra fylgi þessum ábendingum sínum eftir í verki.“