Trump hafði látið þau ummæli falla í viðtali við CNN daginn áður að „íslam hatar okkur,“ og átti þá við Bandaríkin. Spurður út í það í kappræðunum í nótt hvort hann ætti við allan þann rúma einn og hálfa milljarð múslima sem býr um heim allan, svaraði Trump: „Ég á við ansi marga þeirra.“
Trump, sem áður hefur sagst ætla að meina múslimum aðgöngu að Bandaríkjunum verði hann forseti, uppskar talsvert lófaklapp fyrir svar sitt. Þingmaðurinn Marco Rubio reyndi að svara keppinauti sínum fullum hálsi en svarið var nokkuð aumkunarvert, líkt og bandaríska fréttaveitan Vox bendir á.
Vox hefur klippt myndband af svörum þeirra Trump og Rubio og bendir á að sá síðarnefndi virðist svara Trump á þann veg að ekki eigi að fordæma múslima vegna þess að múslimar gætu nýst Bandaríkjamönnum – meðal annars með því að snúa til kristinnar trúar eða ganga í bandaríska herinn.
Myndbandið má sjá hér að neðan. Gengið verður til atkvæða í fimm ríkjum þann 15. mars næstkomandi.