Reynt var að hafa tal af öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins en bara náðist í Guðlaug Þór Þórðarson og Vilhjálm Bjarnason, sem vildu ekki tjá sig. Ítrekað var reynt að ná í Bjarna Benediktsson, formann flokksins, án árangurs.
Nokkrir þingmenn flokksins hafa þó tjáð sig annars staðar. Brynjar Níelsson sagði í samtali við Ríkisútvarpið í gær að málið væri óþægilegt fyrir ríkisstjórnarsamstarfið sérstaklega í ljósi undangenginna samninga við kröfuhafa og vegna afnáms hafta. Hann vill að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundi um málið og fái allar staðreyndir upp á borðið.

Vilhjálmur Bjarnason lýsti þá þeirri skoðun sinni í samtali við Stöð 2 að forsætisráðherra hefði átt að upplýsa um eignarhald eiginkonu sinnar og að málið rýri traust á milli stjórnarflokkanna.

Þá sagði Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, í samtali við útvarpsfréttir RÚV í gær að stofna ætti rannsóknarnefnd um málið en slíkt hafi verið gert af minna tilefni.