Gianluigi Buffon, markvörður Juventus, skráði sig í sögubækurnar um helgina er hann hélt marki sínu hreinu lengur en nokkur annar markvörður í sögu ítalska boltans.
Buffon fékk ekki á sig mark í 974 mínútur í ítalska boltanum. Um helgina fékk hann á sig eitt mark og það kom úr vítaspyrnu í 1-4 sigri Juve á Tórínó.
Með þessum árangri sló hann 22 ára gamalt met sem Sebastiano Rossi, fyrrum markvörður AC Milan, átti. Hann hélt marki sínu hreinu í 929 mínútur árin 1993 til 1994.
Rossi var í sambandi með Buffon eftir leikinn og allt í beinni í sjónvarpinu.
„Til hamingju með metið. Ég er feginn að þú slóst það og að metið verði því áfram í höndum Ítala,“ sagði auðmjúkur Rossi við Buffon. Hinn 38 ára gamli Buffon er nú búinn að fá á sig tvö mörk í ítalska boltanum á þessu ári.
Til að setja þetta met í smá samhengi má nefna nokkur dæmi um hvað sé hægt að gera á 947 mínútum.
Það má meðal annars horfa á allar sjö Star Wars-myndirnar. Það er hægt að fljúga frá New York til London og aftur til baka nú eða keyra frá Houston til Chicago.
Hélt markinu hreinu í næstum þúsund mínútur
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
