Haukar komust í gær áfram í undanúrslit Domino's deildar karla eftir sigur á Þór í Þorlákshöfn, 96-100, í fjórða leik liðanna í 8-liða úrslitunum.
Þórsarar voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu með 14 stigum að honum loknum, 54-40. En Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn af gríðarlega krafti, skoruðu 14 fyrstu stig hans og jöfnuðu metin.
Lokamínútur leiksins voru gríðarlega spennandi. Ragnar Nathanaelsson fór á vítalínuna í stöðunni 87-88 og 2,6 sekúndur eftir. Miðherjinn hávaxni klúðraði fyrra vítinu en setti það seinna niður. Staðan því jöfn, 88-88.
Haukar tóku strax leikhlé og eftir miklar bollaleggingar hjá þjálfaranum Ívari Ásgrímssyni og aðstoðarmönnum hans teiknuðu þeir upp leikkerfi sem gekk nær fullkomlega upp.
Emil Barja tók innkastið inni á vallarhelmingi Þórs, sendi háa sendingu á Hjálmar Stefánsson sem blakaði boltanum svo út fyrir þriggja stiga línuna á Kára Jónsson. Færið var fínt en boltinn skoppaði af hringnum og því þurfti að framlengja.
Sjá einnig: Maður leiksins í Þorlákshöfn mætti í settið | Myndband
Strákarnir í Körfuboltakvöldi voru afar hrifnir af þessu leikkerfi Haukamanna og fóru yfir það með Kára, manninum sem tók lokaskotið, í setti eftir leikinn.
Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.
Körfuboltakvöld: Sjáðu frábærlega teiknað kerfi hjá Haukum | Myndband
Tengdar fréttir

Körfuboltakvöld: Skagfirsk sveifla í Síkinu | Myndband
Tindastóll tryggði sér sæti í undanúrslitum Domino's deildar karla með stæl þegar þeir unnu stórsigur, 98-68, á Keflavík í Síkinu á mánudagskvöldið.