Innlent

Sigmundur Davíð: „Voru embættismennirnir með töskurnar mættir?“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, mætir á Bessastaði í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, mætir á Bessastaði í dag. vísir/Anton
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, mætti nú rétt í þessu á ríkisráðsfund á Bessastöðum þar sem hann mun biðjast lausnar fyrir ráðuneyti sitt.

Nokkuð vel lá á Sigmundi þegar hann mætti blaðamönnum á tröppunum á Bessastöðum en aðspurður hvernig honum litist á að vera að hætta sagði hann:

„Ég spjalla kannski betur við ykkur á eftir en má ég spyrja ykkur um eitt: Voru embættismennirnir með töskurnar mættir?“

Fáar töskur hafa vakið jafn mikla athygli og ríkisráðstaskan svokallaða sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, nefndi sem sönnun fyrir því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefði óskað formlega eftir þingrofi við sig á fundi sem þeir áttu saman í hádeginu á Bessastöðum á þriðjudag.

Vísir sendi fyrirspurn til Ragnhildar Arnljótsdóttur, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, þar sem spurt var út í viðkomandi ríkisráðstösku en hún sagði ekki til sérstaka tösku í forsætisráðuneytinu sem merkt er eða einkennd sem „ríkisráðstaska“.

Hins vegar segir hún tvær skjalatöskur þó til í ráðuneytinu sem meðal annars eru notaðar til að bera skjöl til undirritunar forseta en ekki er vitað hvaða taska var tekin með á þriðjudaginn eða í dag.

Sigmundur Davíð sagði síðan að það væri fín tilfinning að vera að hætta.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, laumaðist inn á Bessastaði og framhjá blaðamönnum á meðan þeir ræddu við Gunnar Braga Sveinsson, fráfarandi utanríkisráðherra, og ræddi því ekki við fréttamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×