Innlent

Vantrauststillaga lögð fram á morgun

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. vísir/daníel
Stjórnarandstaðan hefur lagt fram vantrauststillögu á ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar en stjórnin hefur enn ekki tekið við. Þetta staðfestir Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, í samtali við fréttastofu 365.

Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson tilkynntu nú fyrir skemmstu að þeir hyggðu á áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Sigurður Ingi tekur við forsætisráðherraembættinu en ekki er vitað hvaða framsóknarmenn raðast í aðra ráðherrastóla. Ljóst er hins vegar að Lilja Alfreðsdóttir mun verða utanþingsráðherra.

Ríkisráðsfundur mun fara fram á morgun um hádegi þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mun biðjast lausnar og ný stjórn mun taka við. 

Þingfundur hefst klukkan 10.30 í fyrramálið en á dagskrá er tvöfaldur óundirbúinn fyrirspurnartími þar sem Sigurður Ingi og Bjarni sitja fyrir svörum. Vantrausttillaga hafði verið lögð fram gegn eldri stjórninni og nú er ljóst að nýju stjórnarinnar bíður slík tillaga. Tillagan var sett í prentun í kvöld og verður að öllum líkindum dreift á morgun þegar þingfundur hefst.

Bjarni Benediktsson sagði í beinni útsendingu nú fyrir skemmstu að ný stjórn myndi bregðast við vantrauststillögu með „atkvæðum 38 stjórnarþingmanna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×