Innlent

Vilja að Sjálfstæðisflokkurinn leiði nýja ríkisstjórn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. vísir/AntonBrink
Vörður, fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, samþykkti á fundi sínum í dag ályktun þar sem því er lýst yfir að Sjálfstæðisflokkurinn leiði nýja ríkisstjórn. Þá telur fulltrúaráðið jafnframt mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn fari áfram með ráðuneyti fjármála-og efnahagsmála, og nái þá að ljúka við þau mikilvægu mál sem þar eru í vinnslu. Að öðrum kosti vill Vörður að gengið verði til kosninga.

Ályktunina má sjá í heild sinni hér að neðan:

„Vörður, fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, vill vegna atburða síðustu daga, sem leitt hafa til ófyrirséðra atvika, lýsa því yfir að forysta Sjálfstæðisflokksins nýtur skýlaust trausts fulltrúaráðsins til að taka við forsætisráðuneytinu og leiða nýja ríkisstjórn. Fulltrúaráðið telur jafnframt mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn fari áfram með ráðuneyti fjármála- og efnahagsmála, og nái að ljúka við  þau mikilvægu mál sem þar eru í vinnslu. Að öðrum kosti verði gengið til kosninga án tafar.“

Eins og kunnugt er fara nú fram viðræður á milli þeirra Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, og Sigurðar Inga Jóhannssonar, landbúnaðar-og sjávarútvegsráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins, um myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, ákvað í gær að segja af sér.

Ekki liggur fyrir hver niðurstaða viðræðnanna verður en samkvæmt tillögu Sigmundar Davíðs, sem þingflokkur Framsóknar samþykkti, mun Sigurður Ingi verða forsætisráðherra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×