Innlent

Vantrauststillaga gæti verið úrelt á morgun

Bjarki Ármannsson skrifar
Þingflokksformenn funda með forseta þingsins í hádeginu.
Þingflokksformenn funda með forseta þingsins í hádeginu. vísir/stefán
Vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar á ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar verður ekki tekin til afgreiðslu á þingfundi í fyrramálið.

Þingfundur hefst klukkan 10.30 og hefur Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, ákveðið að aðeins eitt mál verði á dagskrá; óundirbúinn fyrirspurnartími þar sem ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson sitja meðal annarra fyrir svörum.

„Niðurstaðan er sú að þessi fundartími, sem jafnan er hálftími, verður tvöfalt lengri að þessu sinni vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru í samfélaginu og á þinginu,“ segir Einar. „Síðan verðum við auðvitað að sjá hvernig framvindan verður í dag.“

Einar fundaði með fulltrúum þingflokkanna í hádeginu í dag og fór stjórnarandstaðan þar fram á að vantrauststillaga á ríkisstjórn Sigmundar Davíðs yrði tekin til afgreiðslu í fyrramálið.

„Það var mín niðurstaða að ekki væri skynsamlegt að leggja tillöguna um vantraust á dagskrá á morgun í ljósi þess að það eru hér viðræður í gangi um myndun nýs ráðuneytis undir stjórn nýs forsætisráðherra og þess vegna taldi ég betra að sjá hvað út úr því kæmi,“ segir Einar. „Enda gæti slík tillaga þess vegna orðið úrelt á morgun, leiði þessar viðræður í dag til þess að mynduð verði ríkisstjórn undir nýju forsæti.“

Sérðu þá ekki fyrir þér að vantrauststillaga geti verið tekin fyrir fyrr en niðurstaða úr viðræðunum liggur fyrir?

„Ég vil að minnsta kosti, af þessum ástæðum, sjá myndina skýrar fyrir mér. En auðvitað kemur að því að vantrauststillagan verður tekin fyrir, eða ný vantrauststillaga ef efni standa til þess.“

Einar segist aðspurður ekki treysta sér til þess að segja til um hvernig dagskránni á þinginu verður háttað til lengri tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×