Innlent

Segir forsætisráðherra á ábyrgð Sjálfstæðisflokks

Sveinn Arnarsson skrifar
Grétar Þór Eyþórsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst
Grétar Þór Eyþórsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst Mynd/aðsend
Pólitískt líf Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra er í höndum þingflokks Sjálfstæðisflokksins, að mati Grétars Þórs Eyþórssonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.

„Sigmundur Davíð hefur greinilega fengið stuðning síns þingflokks. Nú er hins vegar boltinn í Valhöll og framtíðin ræðst af því hvað sjálfstæðismenn gera,“ segir Grétar Þór. „Það skaðar ríkisstjórnina þegar forsætisráðherra er svona laskaður. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni. Forsætisráðherra getur haldið lífið í samstarfinu með því að stíga til hliðar.“

Heimdallur ályktaði í gær að félagið styðji ekki núverandi ríkisstjórn með Sigmund Davíð í forsætisráðuneytinu. Kristín Edwald, formaður Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, segir alvarlega stöðu uppi í íslenskri pólitík og er sammála mati Heimdalls á stöðu forsætisráðherra. „Ég tek undir með ályktun Heimdalls. Ég er nú að vinna í því að smala saman stjórn Varðar á stjórnarfund þar sem ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins verður rætt,“ segir Kristín.

Grétar Þór segir stöðuna fordæmalausa. „Sjálfstæðismenn munu þurfa að gera upp hug sinn hvað varðar það að verja Sigmund Davíð sem forsætisráðherra. Hversu fjölmenn mótmælin verða næstu daga mun ábyggilega verða tekið með í reikninginn hjá þeim.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×