Hannes Þór Halldórsson og félagar í Bodö/Glimt byrja tímabilið í norsku úrvalsdeildinni af krafti en í dag unnu þeir 3-1 sigur á Stabæk.
Bodö/Glimt hefur unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum og gert eitt jafntefli og situr á toppi deildarinnar á markatölu.
Hannes var á sínum stað í marki Bodö/Glimt í dag en hann er á láni hjá norska liðinu frá NEC Nijmegen í Hollandi.
Aron Elís Þrándarson og Adam Örn Arnarson, leikmenn íslenska U-21 árs landsliðsins, léku báðir allan tímann fyrir Aalesund sem tapaði 1-2 fyrir Brann á heimavelli. Daníel Leó Grétarsson var ónotaður varamaður.
Aalesund er með þrjú stig eftir þrjár umferðir, einu meira en Sarpsborg 08 sem gerði markalaust jafntefli við Sogndal á heimavelli.
Kristinn Jónsson lék allan leikinn í stöðu vinstri bakvarðar hjá Sarpsborg en hann er á sínu fyrsta tímabili hjá félaginu.
Þá var Aron Sigurðarson fjarri góðu gamni þegar Tromsö og Odd skildu jöfn, 0-0.

