Atletico Madrid heldur pressunni á Barcelona áfram á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir 3-0 sigur á Granada í dag.
Madrídar-liðið er nú með jafn mörg stig og Barcelona á toppi deildarinnar, en Barcelona á þó leik til góða í kvöld gegn Valencia. Hitt Madrídar-liðið, Real, er svo stigi á eftir þeim.
Koke kom Atletico yfir á fimmtándu mínútu og næsta mark lét bíða eftir sér. Það gerði Fernando Torres á 59. mínútu þegar hann tvöfaldaði forystuna.
Angel Correa rak svo síðasta naglann í líkkistu Granada sjö mínútum fyrir leikslok og lokatölur 3-0, en Granada er í sautjánda sætinu með 30 stig, stigi frá fallsæti.
