Innlent

Umboðsmaður: Ekki tilefni til frumkvæðisathugunar á aðkomu Sigmundar að afnámi hafta

ingvar haraldsson skrifar
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. Vísir/Friðrik Þór
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, segist ekki sjá tilefni að því að hefja frumkvæðisathugun á aðkomu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, á afnámi gjaldeyrishafta og uppgjöri slitabúa föllnu bankanna. Þetta kom fram á fundi umboðsmanns með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Tryggvi sagði hæfis­regl­ur stjórnsýslulaga aðeins eiga við um stjórnvaldsákvarðanir sem snertu rétt­indi borg­ar­anna. Hins vegar væri vandinn um að hve miklu leiti hæfisreglur giltu um póli­tíska stefnu­mót­un. Eina vanhæfisreglan sem gilti um þingmenn væru að þeir mættu ekki greiða at­kvæði um fjár­út­lát til þeirra sjálfra. Hlutverk hæfisregla væri fyrst og fremst ætlað að vernda réttindi þeirra sem ákvarðanir beindust að. Tryggvi sagðist ekki geta séð að um samninga hafi verið að ræða milli ríkisins og kröfuhafa.

Tryggvi sagði hlutverk ráðherra felast í pólitískri stefnumörkun. Þá hefði endanleg ákvörðun er snéri að slitabúnum hafa verið tekin á Alþingi með lagabreytingum.

Í Danmörku þarf að skrá hagsmuni maka

Hann benti einnig á að umboðsmaður hefði takmarkaða möguleika til að stunda frumkvæðisathuganir en engin frumkvæðisathuganir fóru fram hjá umboðsmanni á síðasta ári vegna fjárskorts og álags á starfsmenn að sögn umboðsmanns.

Þá sagðist Tryggvi ekki geta séð að um samninga hafi verið að ræða milli ríkisins og kröfuhafa í tengslum við uppgjör búanna. „Ég get ekki séð það að stjórnvöld hafi tekið neinar ákvarðanir um greiðslur til einstakra kröfuhafa.“

Tryggvi benti á að ákveðin ráðgjafaskylda væri á starfsmönnum stjórnarráðsins en til þess þyrftu þeirra að hafa fullnægjandi upplýsingar. Því kynni að vera að ganga þyrfti lengra við skráningu hagsmuna en nú væri gert. Hann benti til að mynda á að í Danmörku þyrftu ráðherrar að skrá hagsmuni maka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×