Lisbeth Sung, fréttamaður á vegum danska fréttaskýringaþáttarins TV Avisen, var á mótmælunum og útskýrði fyrir áhorfendum að mikill munur væri á borg og sveit þegar kemur að stuðningi við ríkisstjórn landsins. Ákvað hún því að aka um fjóra tíma út fyrir höfuðborgina og fór til Sauðárkróks í Skagafirði, eins af sterkustu vígum Framsóknarflokksins, til að kanna stuðning við stjórnina.
Þar hitti Sung fyrir Sigurð Skagfjörð en aðspurður um hvaða flokk hann styður svaraði hann: „Fyrst og fremst Framsókn.“
Þegar Guðbjörg Arnardóttir var spurð hvort hún hafi kosið Framsóknarflokkinn svaraði hún glöð í bragði: „Já, já. Ég bý hér.“
Hallgrímur Blöndal sagði Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn það besta sem er í boði á Íslandi. „Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn er það besta sem er í boði á Íslandi. Við erum ekki eins og kaffihúsafólkið sem býr í Reykjavík. Hér er hafið og fiskurinn og mögulega er hugsunarhátturinn annar hér,“ svaraði Hallgrímur.
Athygli fjölmiðla erlendis hefur að mestu beinst að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, sem óskaði lausnar úr embætti forsætisráðherra í síðustu viku eftir að fjallað var um tengsl hans við aflandsfélagið Wintris sem heldur utan um fjölskylduarf eiginkonu hans Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur.
Hallgrímur spurði Lisbeth Sung hvað það væri sem Sigmundur Davíð hefði gert rangt? „Hann borgaði skatt af þessum peningum og hvað gerði hann rangt? Ekkert!“
Í kjölfarið er rætt við Ibrahim Antar sem er ekki á sama máli. „Ef allir hefðu gert það sem og hann gerði væri landið rústir einar.“
Sjá má innslagið hér fyrir neðan: