Helgi Már Magnússon lék væntanlega sinn síðasta leik á ferlinum í kvöld þegar KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með 14 stiga sigri, 70-84, á Haukum í Schenker-höllinni.
Helgi Már mun á næstunni flytja til Washington í Bandaríkjunum þar sem eiginkona hans, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, starfar fyrir Alþjóðgjaldeyrissjóðinn.
Sjá einnig: Helgi er núna ánægður með bróður sinn: Ferillinn hefði ekki getað endað betur
Helgi skoraði 11 stig í leiknum í kvöld, tók fjögur fráköst og gaf sjö stoðsendingar.
Þetta er fimmti Íslandsmeistaratitilinn sem Helgi vinnur með KR en hann vann þann fyrsta árið 2000. KR varð einnig bikarmeistari í ár en Helgi átti stórleik í úrslitaleiknum gegn Þór Þorlákshöfn.
Helgi fékk höfðinglegar móttökur í Domino's Körfuboltakvöldi eftir leikinn í Schenker-höllinni í kvöld. Helgi mætti í settið hjá Kjartani Atla Kjartanssyni og félögum og var komið á óvart með sérstöku heiðursmyndbandi.
Myndbandið til heiðurs Helga, sem Stefán Snær Geirmundsson klippti saman, má sjá í spilaranum hér að ofan.
