Handknattleiksmaðurinn Róbert Aron Hostert er á heimleið eftir tveggja ára dvöl hjá danska úrvalsdeildarliðinu Mors/Thy, en þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun.
Róberti Aroni var boðið að framlenga samning sinn við danska félagið sem hafnaði í tíunda sæti dönsku úrvalsdeildarinnar í vetur en hann hafnaði því.
Arnar Theodórsson, umboðsmaður Róberts, segir í samtali við Morgunblaðið að skyttan öfluga sé í viðræðum við ÍBV og Stjörnuna sem verða nýliðar í deildinni á næstu leiktíð.
Það yrði gríðarlegur hvalreki fyrir nýliða Stjörnunnar að fá Róbert Aron í sínar raðir, en hann þekkir vel til hjá ÍBV eftir að verða meistari með liðinu árið 2014. Hann var í kjölfarið kjörinn besti leikmaður tímabilsins.
Árið áður varð Róbert Aron Íslandsmeistari með Fram. Þessi 25 ára gamla vinstri skytta á að baki þrjá leiki með A-landsliði Íslands.
