KR-ingar unnu 30 stiga sigur á Haukum í gærkvöldi í fyrsta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Domino´s deild karla í körfubolta. Þetta er ekki fyrsta úrslitaeinvígið sem byrjar á skelli.
Þrisvar sinnum áður hefur lið unnið stærri sigur í leik eitt í lokaúrslitum og í tveimur þeirra voru það líka Haukar sem fengu skellinn.
Metið er síðan 1986 þegar Njarðvíkingar unnu 41 stigs sigur á Haukum í fyrsta leik, 94-53. Njarðvíkingar tryggðu sér síðan Íslandsmeistaratitilinn með tveggja stiga sigri í Strandgötu í næsta leik en í þá daga þurfti bara að vinna tvo leiki.
Það er ekki útilokað að þetta einvígi fari alla leið í oddaleik ef marka má söguna. Njarðvíkingar unnu nefnilega 37 stiga sigur á Keflavík í fyrsta leik lokaúrslitanna 1991 en úrslitin réðust ekki fyrr en í oddaleik þar sem reyndar Njarðvíkingar höfðu betur.
Þetta eru önnur lokaúrslitin í röð sem Haukar byrja á skelli en þeir töpuðu með 36 stigum á móti Keflavík þegar þeir voru síðast í úrslitaeinvíginu fyrir 23 árum eða vorið 1993. Keflavík vann þá úrslitaeinvígið á endanum 3-0.
Þetta er ennfremur í annað skiptið sem KR-ingar vinna 30 stiga sigur í fyrsta leik í lokaúrslitum en því náðu þeir einnig á móti Stjörnunni í úrslitaeinvíginu 2011. Stjarnan jafnaði þá metin í leik tvö en KR vann einvígið á endanum 3-1.
Það hefur aðeins tveimur liðum tekist að vinna titilinn eftir tuttugu stiga tap í fyrsta leik en þau töpuðu með 20 eða 21 stigi. Það eru lið Haukar frá 1988 og lið lið KR frá 2007.
Haukar fengu nefnilega 20 stiga skell í fyrsta leik í Njarðvík þegar þeir unnu Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta og eina skiptið fyrir 28 árum síðan. Haukar svöruðu með 6 stiga sigri á heimavelli sínum og tryggðu sér síðan sigurinn í tvíframlengdum leik í Ljónagryfjunni í Njarðvík.
Stærstu sigrar í fyrsta leik í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitil karla
41 stig
Lokaúrslit 1986
Njarðvík-Haukar 94-53
(Njarðvík vann 2-0)
37 stig
Lokaúrslit 1991
Njarðvík-Keflavík 96-59
(Njarðvík vann síðan 3-2)
36 stig
Lokaúrslit 1993
Keflavík-Haukar 103-67
(Keflavík vann síðan 3-0)
30 stig
Lokaúrslit 2011
KR-Stjarnan 108-78
(KR vann síðan 3-1)
30 stig
Lokaúrslit 2016
KR-Haukar 91-61
24 stig
Lokaúrslit 2001
Njarðvík-Tindastóll 89-65
(Njarðvík vann síðan 3-1)
24 stig
Lokaúrslit 2013
Grindavík-Stjarnan 108-84
(Grindavík vann síðan 3-2)
22 stig
Lokaúrslit 1992
Keflavík-Valur 106-84
(Keflavík vann síðan 3-2)
21 stig
Lokaúrslit 2002
Keflavík-Njarðvík 68-89
(Njarðvík vann síðan 3-0)
21 stig
Lokaúrslit 2007
Njarðvík-KR 99-78
(KR vann síðan 3-1)
20 stig
Lokaúrslit 1988
Njarðvík-Haukar 78-58
(Haukar unnu síðan 2-1)

