„Mér þykir vænt um það traust sem Íslendingar sýna mér margir og held ótrauður áfram að kynna mín sjónarmið. Mér finnst það fagnaðarefni að eftir því sem líður á eykst fylgið frekar en hitt. En skoðanakannanir skipta ekki máli heldur niðurstaða fólksins sem velur forsetann 25. júní,“ segir Guðni en stóra málið segir hann auðvitað að atkvæðin skili sér í kjörkassann.

Brotthvarf ÓRG kemur ekki á óvart
Þá flutti blaðamaður Guðna einnig þau tíðindi að sitjandi forseti Ólafur Ragnar Grímsson hefði hætt við framboð en Guðni var staddur á minningarathöfn þegar tíðindin bárust.
„Þessi tíðindi koma mér í sjálfu sér ekki á óvart. Ég vænti þess að næsti forseti, hver sem það verður, fagni því að Ólafur Ragnar haldi áfram að láta til sín taka fyrir Íslands hönd. Til dæmis í málefnum Norðurslóða og á vettvangi endurnýtanlegrar orku þar sem hann er svo sannarlega á heimavelli. Og framtíð hans verði á þann veg sem hann sá fyrir og lýsti ágætlega í nýársávarpi sínu.“
Ólafur Ragnar sagði í yfirlýsingu sinni að nú væri ljóst að komnir væru fram sterkir frambjóðendur sem nytu víðtæks stuðnings á meðal þjóðarinnar. Þegar Ólafur Ragnar tilkynnti um framboð sitt í apríl þá sagðist Ólafur myndu fagna því ef annar frambjóðandi kæmi fram sem þjóðin myndi heldur vilja kjósa til embættis forseta. Þá myndi hann fljúga glaður til móts við frelsið.