Cristiano Ronaldo er klár í slaginn með Real Madrid fyrir seinni leik liðsins gegn Manchester City í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.
Ronaldo hefur misst af síðustu þremur leikjum Real Madrid vegna meiðsla í læri, þar á meðal markalausu jafntefli spænska liðsins gegn Manchester City á Etihad-vellinum í síðustu viku.
Þetta eru augljóslega frábærar fréttir fyrir Real Madrid sem þarf að vinna leikinn til að komast áfram. Markajafntefli kemur City áfram á útivallarmarkareglunni.
Ronaldo tók fullan þátt í æfingu Real Madrid í dag og Zinedine Zidane, þjálfari Real Madrid, staðfesti við fréttamenn eftir hana að Ronaldo myndi taka fullan þátt í leiknum á miðvikudagskvöldið.
„Cristiano er klár. Hann er 100 prósent klár. Hann æfði í morgun og verður klár á morgun,“ sagði Zinedine Zidane.
