Margrét Indriðadóttir, fyrrverandi fréttastjóri Ríkisútvarpsins, lést á Líknardeild Landspítalans í gær. Margrét varð fyrst kvenna á Norðurlöndum til að gegna starfi fréttastjóra á ríkisfjölmiðli.
Margrét fæddist á Akureyri árið 1923, dóttir Laufeyjar Jóhannsdóttur húsmóður og Indriða Helgasonar, rafvirkjameistara og kaupmanns.
Margrét lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1943 og starfaði að því búnu á Morgunblaðinu í þrjú ár en hélt þá til náms í blaðamennsku í Bandaríkjunum þar sem hún lauk BA-prófi frá School of Journalism við Minnesota háskóla árið 1947.
Eftir heimkomu starfaði hún á Morgunblaðinu og skamma hríð á Tímanum en var árið 1949 ráðinn fréttamaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins, fyrst kvenna. Margrét varð fréttastjóri þar árið 1968, fyrst kvenna á Norðurlöndum. Hún lét af störfum árið 1986. Starfsferill hennar á fjölmiðlum spannar þannig 43 ár.
Hún hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, þar á meðal hin norrænu Nordfag-verðlaun 1991 og hina íslensku fálkaorðu árið 2007.
Margrét Indriðadóttir var gift Thor Vilhjálmssyni rithöfundi og áttu þau tvo syni, Örnólf og Guðmund Andra.
