Gareth Bale hefur kveikt í umræðunni fyrir úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu á laugardaginn með því að segja að enginn leikmaður Atlético Madrid komist í byrjunarlið Real Madrid.
Aðeins tveimur stigum munaði á liðunum í spænsku úrvalsdeildinni í vetur og þá tókst Real Madrid ekki að vinna nágranna sína í deildarleikjunum tveimur. Þrátt fyrir það segir Bale að Real Madrid sé klárlega með sterkara lið en Atlético Madrid.
„Að mínu viti myndi enginn leikmaður Atlético komast í lið Real Madrid,“ sagði Bale í samtali við spænska útvarpsstöð.
Sjá einnig: Ancelotti: Pérez bað mig um að breyta hlutverki Bale
Þessi sömu lið mættust einnig í úrslitum Meistaradeildarinnar 2014 þar sem Real Madrid hafði betur með fjórum mörkum gegn einu. Bale skoraði eitt marka liðsins í leiknum.
Bale, sem er á sínu þriðja tímabili hjá Real Madrid, hefur skorað 20 mörk í 30 leikjum í vetur.
