Kingsley Coman, leikmaður Bayern München, vann um helgina sinn áttunda stórtitil á ferlinum, þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gamall.
Coman fagnaði þá þýska bikarmeistaratitlinum ásamt félögum sínum í Bayern eftir sigur á Borussia Dortmund í vítaspyrnukeppni.
Coman vann einnig þýska meistaratitilinn með Bayern en hann er búinn með fyrra árið á tveggja ára lánssamningi sínum frá Juventus.
Coman hóf ferilinn með Paris Saint-Germain og vann frönsku deildina í tvígang með liðinu sem og franska Ofurbikarinn einu sinni.
Coman færði sig um set til Juventus sumarið 2014 og varð tvöfaldur meistari á sínu fyrsta tímabili hjá ítalska stórliðinu. Frakkinn vann svo ítalska Ofurbikarinn með Juventus síðasta haust, áður en hann fór til Bayern.
Þessi efnilegi leikmaður, sem verður ekki tvítugur fyrr en í næsta mánuði, var valinn í lokahóp franska landsliðsins fyrir EM á heimavelli í sumar.

