Innlent

Bjarni boðar sókn í uppbyggingu innviða samfélagsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. vísir/anton
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, boðaði sókn í styrkingu innviða hér á landi í ræðu sinni á eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.

„Verkefnið framundan snýr ekki síst að því að sækja fram að fullum krafti,“ sagði Bjarni. „Við vitum að hér eru of margar einbreiðar brýr. Það eru víða göt og sprungur sem hægt er að falla í gegnum.“

Bjarni lagði áherslu á efnahagslegan ávinning sem náðst hafði í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Sagði hann að skuldir heimilinna væru lægri nú en áður hefði mælst í fjölmörg ár.

„Svo mjög vel hefur gengið að bæta kjör launþega að kaupmáttur launa hefur ekki vaxið jafn ört síðustu 12 mánuði frá því að mælingar hófust.“

Bjarni nefndi þó að óraunhæft væri að ætla að slíkur vöxtur á kaupmáttum launa væri sjálfsagður hlutur. Erfitt yrði að viðhalda slíkum vexti en með sameinuðu átaki stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins væri hægt að verja slíkan kaupmátt.

Benti Bjarni á að skuldir heimilanna hefðu lækkað mikið en minntist jafnframt á að það þýddi ekki að hér væru ekki margir sem ættu erfitt með að ná endum saman. Það þýddi einfaldlega að fleiri væru í betri stöðu en áður, það væri verkefni Alþingis að aðstoða hina verr stöddu við að ná markmiðum sínum.

Að lokum beindi Bjarni máli sínu að þingmönnum og bað þá um að velta því fyrir sér hvað það væri sem þjóðin vildi að þingmenn ræddu á þingi. Vildi hann að þingmenn myndi íhuga hvort að umræða undir liðnum fundarstjórn forseta hafi skilað miklu til þjóðarinnar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×