Sanders bauð sig fram í að verða forsetaefni Demókrata á móti Hillary Clinton en hún hefur nú tryggt sér nægan fjölda fulltrúa til þess að verða réttkjörinn forsetaframbjóðandi fyrir Demókrata. Þrátt fyrir þetta ætlar Sanders ekki að hætta baráttunni ennþá. Næst verða kosningar í Washington DC og stefnir Sanders alla leið í þeim.
Sanders og Obama, sem kemur einnig úr röðum Demókrata, funduðu í klukkustund og eftir fundinn veitti Sanders viðtal. Þar sagðist hann ætla að vinna af öllum mætti með Demókrötum til þess að sigra Donald Trump, forsetaframbjóðanda Repúblikana. Hann sagði að það yrði hörmulegt ef Trump yrði forseti.
„Ég hlakka til að hitta Clinton bráðlega og skoða hvernig við getum unnið saman að því að sigra Donald Trump og skapa ríkisstjórn sem mun standa fyrir okkur öll en ekki bara efsta prósentið,“ sagði Sanders. Sanders þakkaði bæði Obama og varaforsetanum Joe Biden fyrir að sýna hlutleysi í forkosningunum.
„Þeir sögðu í upphafi að þeir myndu ekki leggja þumal sinn á vogarskálarnar og þeir stóðu við þau orð sín. Ég kann mikið að meta það,“ sagði Sanders. Hann sagðist jafnframt búast við því að það yrði mjótt á munum í kosningum meðal Demókrata í Washington DC. Hann sagði fyrir þremur dögum þegar ljóst var orðið að Clinton væri kominn með tilskilinn fjölda fulltrúa að hann hyggðist ekki hætta fyrr en í fulla hnefana.