Hveragerðisbær greiddi í fyrra 246 þúsund krónur til orlofsnefndar húsmæðra í Árnes- og Rangárvallasýslu. Alls var framlag sveitarfélaganna á svæðinu tæpar tvær milljónir króna. Framlagið byggist á lögum frá árinu 1972. Hveragerði og fleiri sveitarfélög hafa lengi mótmælt þessum útgjöldum.
Frumvarp um afnám laganna hefur ítrekað verið lagt fram á Alþingi frá árinu 2009, síðast í fyrra, en ekki verið afgreitt.

„Höfðum við það mjög notalegt við spjall, prjónaskap, liggja í heitu pottunum og sána, spila bingó, félagsvist og margt fleira,“ segir um dvölina á Stracta. „Fórum heim á hádegi á föstudag, sælar og úthvíldar.“
Um ferðina vestur segir að meðal annars hafi Látrabjarg verið skoðað, Rauðisandur, Listasafn Samúels Jónssonar, heimili Gísla á Uppsölum, Skrímslasetrið á Bíldudal og stórsöngvarinn Jón Kr. Ólafsson verið heimsóttur. Á heimferðardegi að vestan var siglt yfir Breiðafjörð. „Á Selfossi mættum við svo sælar og ferðalúnar,“ segir um ferðalokin.
Bæjarráð Hveragerðis kveðst þakka orlofsnefnd skilmerkilegar skýrslur um greinilega góð og skemmtileg ferðalög kvenna en ítrekar fyrri bókanir um að þessar ferðir væru undarleg tímaskekkja.
„Slík mismunun á milli kynja og án nokkurrar skoðunar á fjárhagslegri stöðu þiggjenda er í undarlegri mótsögn við rekstur sveitarfélaga almennt og þær lagaskyldur sem á þau eru lagðar,“ segir bæjarráðið.
Eygerður Þórisdóttir, gjaldkeri orlofsnefnda húsmæðra í Árnes- og Rangárvallasýslu, segir að þótt lögin séu í raun tímaskekkja hafi þau sitt gildi. „Það er fullt af konum sem þurfa á þessu að halda,“ segir Eygerður. „Konur sem eru einar; konur sem eru ekkjur og hafa kannski ekki varasjóð til að komast í burtu.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júní