Erlent

Táragasi beitt á enskar og rússneskar boltabullur í Lille

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Enskar og rússneskar fótboltabullur tókust á enn á ný í Frakklandi í dag. Þurfti lögregla að beita táragasi og vatnsbyssum til þess að stía hópana í sundur. Knattspyrnusamband Evrópu hefur hótað að vísa báðum landsliðum úr keppni vegna óláta á milli stuðningsmanna liðanna.

Átökin brutust út eftir tap Rússa gegn Slóvakíu í Lille fyrr í dag en stór hópur Englendinga er í borginni vegna leiks Englands og Wales sem fer framm í Lens á morgun en Lens er örskammt frá Lille.

Var stuðningsmönnum sem ekki höfðu miða á leik Englands og Wales beint til Lille þar sem Lens gæti ekki tekið á móti svo mörgum stuðningsmönnum. Lögreglan í Frakklandi var fljót að grípa til aðgerða og beitti táragasi og vatnsbyssum til þess að koma í veg fyrir frekari átök.

The Guardian greinir frá því að rússneskir stuðningsmenn hafi hafið ólætin með því að ráðast á um 200 manna hóp enskra stuðningsmanna sem sat að drykkju við aðaltorg Lille.

Átökin voru mun smærri í sníðum en átökin í Marseille í síðustu viku. Eftir átökin þar í bæ hótaði Knattspyrnusamband Evrópu að reka bæði lið úr keppni tækist ekki að bæta hegðun stuðningsmanna. Eru Rússar á sérstöku skilorði vegna þess.


Tengdar fréttir

Rússar komnir á skilorð

Það er eins gott fyrir stuðningsmenn rússneska landsliðsins að haga sér almennilega það sem eftir er af EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×