Hvorki Marc Janko né Zlatko Junuzovic eru í byrjunarliði Austurríkis sem mætir Íslandi á Stade de France nú síðdegis.
Báðir hafa átt við meiðsli að stríða en Janko og Junuzovic voru báðir í byrjunarliði Austurríkis í fyrsta leiknum, gegn Ungverjalandi, sem tapaðist 2-0. Þeir voru báðir teknir af velli í síðari hálfleik og komu svo ekkert við sögu í 0-0 jafnteflinu gegn Portúgal.
David Alaba var færður fremst á miðjuna eftir meiðsli Junuzovic og heldur þeirri stöðu í dag. Hann var nokkuð gagnrýndur fyrir frammistöðuna í markalausa jafnteflinu gegn Portúgal á laugardag.
Ein breyting er gerð á byrjunarliði Austurríkis frá síðasta leik. Aleksandar Dragovic, sem fékk rautt spjald í leiknum gegn Ungverjalandi, kemur inn í liðið nú en sem hægri bakvörður. Þannig er allavega liðið tilkynnt á heimasíðu UEFA.
Sjálfir virðast þó Austurríkismenn efins um að Austurríki sé að spila 4-3-3 og að Dragovic komi inn sem þriðji miðvörðurinn, með þá Florian Klein og Christian Fuchs sem vængbakverði í 3-5-2.
Austurrískir fjölmiðlar, til dæmis vefrit dagblaðsins Kurier, halda því fram að Marcel Koller landsliðsþjálfari sé að stilla upp í 3-5-2 leikkerfi með þá Marcel Sabitzer og Marko Arnautovic sem fremstu menn.
Byrjunarlið Austurríkis má sjá á heimasíðu UEFA, hér.
