Cedric Soares, bakvörður portúgalska liðsins, sagði fjölmiðlum og um leið heiminum frá því eftir leikinn, að ótrúleg hálfleiksræða Cristiano Ronaldo hafi gefið liðsfélögum hans mikið.
Cedric Soares viðurkenndi að portúgalska liðið hafi verið í áfalli eftir að hafa horft upp á sinn besta leikmann fara útaf vellinum grátandi á börum. Ronaldo var hinsvegar ekki grátandi þegar þeir hittu hann inn í klefa í hálfleik.
„Þetta var mjög erfið stund. Það voru allir í smá áfalli. Í hálfleiknum hélt Cristiano frábæra ræðu. Hann gaf okkur mikið sjálfstraust og sagði: Hlustið, ég er viss um að við munum vinna, stöndum saman og berjumst fyrir þessu," rifjaði Cedric Soares upp í viðtali við blaðamann ESPN.
„Þetta var alveg ótrúlegt. Allt liðið var með frábært hugarfar. Við sýndum það líka í þessum úrslitaleik að þegar allir berjast saman sem einn maður þá er liðið miklu sterkara," sagði Cedric Soares.
Sjá einnig:Ronaldo borinn grátandi af velli í París
„Ronaldo var frábær og viðhorfið hans var ótrúlegt. Hann hefur alltaf komið með hvetjandi orð inn í liðið og það hefur góð áhrif á alla í liðinu. Hann var líka alltaf að koma með réttu orðin til manna á ýmsum tímapunktum í leiknum," sagði Cedric Soares.
Cristiano Ronaldo leit út eins og drífandi aðstoðarþjálfari í seinni hálfleiknum þar sem hann haltraði um á öðrum fætinum.
Miguel Delaney á ESPN sagði einnig frá því að Cristiano Ronaldo hafi farið fyrir kóngódansi í viðtalsherberginu eftir leikinn á milli þess að hann faðmaði liðsfélaga sína sem voru í viðtölum. Þar fór svo sannarlega hamingjusamur maður.
