Meginástæða þess að Elliði fer ekki fram er sú að hann vill ljúka þeim verkefnum sem honum ber að sinna sem leiðtogi sveitarstjórnar í Vestmannaeyjum. Að sögn Elliða takmarkar það að þingkosningum verði að öllum líkindum flýtt verulega möguleika sveitastjórnarmanna á framboði til þingkosninga.
Bæjarstjórinn hefur verið orðaður við prófkjör að undanförnu og létu stuðningsmenn hans, með Páleyju Borgþórsdóttur í broddi fylkingar, vinna skoðanakönnun þar sem fram kom að að 67,5% svarenda sögðust vera líklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í kjördæminu ef Elliði myndi leiða lista flokksins.

„Flestum er ljóst að ákvörðun um flýta þingkosningum takmarkar verulega möguleika sveitarstjórnarmanna, sem annars hefðu ef til vill haft fullan hug, á framboði til þingkosninga. Í dag er kjörtímabil sveitastjórna rétt liðlega hálfnað og verkefnastaðan þétt. Meðal stærstu verkefna okkar í bæjarstjórn Vestmannaeyja er stækkun á hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum, þróun þjónustuíbúða fyrir aldraða, bygging íbúða fyrir fatlaða, fasteignaþróun í miðbæ Vestmannaeyja, þróun háskólanáms, efling þekkingarstarfs, nýsmíði Vestmannaeyjaferju, innleiðing á nýju þjónustuneti fyrir barnafjölskyldur og margt fleira. Þessi verkefni skipta svo marga svo miklu og því mikilvægt að vel takist til.“
Elliði þakkar sýndan stuðning og velvilja en ætlar að einbeita sér að því að ljúka „þeim verkefnum sem ég er ábyrgur fyrir í Vestmannaeyjum, þar sem hjartað slær.“