Hafa aðstandendur vefsins útbúið sérstaka kosningaspá þar sem teknar eru saman niðurstöður allrar skoðanakannanna sem framkvæmdar eru í Bandaríkjunum. Út frá þeim er líkt eftir niðurstöðum tuttugu þúsund kosninga og út koma líkurnar á því hver muni sigra í kosningunum sem haldnar verða í nóvember. Þegar þetta er skrifað líta útreikningar FiveThirtyEight svona út.

Vel þekkt er í bandarískum stjórnmálum að frambjóðendur njóti aukins fylgis í skoðanakönnunum á meðan flokksþingin standa yfir og var engin undantekning þar á eftir flokksþing Repúblikana þetta árið sem stóð yfir frá 18.-21. júlí. Þá var á svipuðum tíma mikið fjallað um tölvupóstmál Clinton frá því að hún var utanríkisráðherra og naut Trump þess í skoðanakönnunum.
Hægt er að útskýra þessa miklu sókn Clinton að hluta til með hinni þekktu fylgisaukningu í kjölfar flokksþinga en flokksþing Demókrata fór fram 25.-28. júlí, helgina eftir flokksþing Repúblikana.

Þótti óvægin gagnrýni Trump á foreldra Khan ómakleg og ljóst að rekja má hluta fylgishruns Trump til þess. Var hann m.a. harðlega gagnrýndur af eigin flokksmönnum, þar á meðal John McCain, fyrrum forsetaefni Repúblikana og einum helsta þungavigtarmanni flokksins. Þá hafa ýmsir innan raða Repúblikanaflokksins gagnrýnt Trump harðlega, þar á meðal 50 helstu sérfræðingar flokksins í þjóðaröryggismálum og segja þeir stefnu Trump í þeim málaflokki beinlínis hættulega.
Ekki batnaði það þegar Trump kallaði eftir því að Rússar myndu stunda njósnir um Clinton eða þegar hann kallaði Clinton djöfulinn sjálfan. Clinton leiðir nú í nánast hverri einustu skoðanakönnun sem gerð er á landsvísu og samkvæmt spá FiveThirtyEight mun Clinton sigra í kosningunum með yfirburðum. Gert er ráð fyrir að Clinton hljóti 365 kjörmenn gegn 172 kjörmönnum Trump.
Í grein á FiveThirtyEight þar sem fjallað er um fylgishrun er þó sérstaklega fram að spá síðunnar sé byggð á skoðanakönnunum sem geti auðveldlega breyst. Eins og staðan er núna séu þó yfirgnæfandi líkur á því að á næsta ári setjist kona í fyrsta sinn í æðsta valdastól Bandaríkjanna.
