„Við erum í góðum málum, við erum skipulögð og við höldum áfram,“ sagði Paul Manafort í viðtali við fréttastofu Fox. Trump þykir hafa stigið feilspor með því að gagnrýna foreldra Humayun Khan, hermanns sem lést í Írak árið 2004. Foreldrar hans ávörpuðu flokksþing Demókrata og gagnrýndu Trump harkalega.
Hafa bandarískir fjölmiðlar greint frá því að orð Trump í garð foreldra Khan hafi fallið í grýttan jarðveg á meðal starfsmanna framboðs Trump og lét einn starfsmaður hafa eftir sér við CNN að þeim fyndist mörgum eins og þeir væru að kasta tíma sínum á glæ með því að starfa fyrir Trump.
Þá greindi NBC frá því að háttsettir menn innan Repúblikanaflokksins ætluðu sér að blanda sér í kosningabaráttu Trump með því að krefjast þess að hann myndi einbeita sér að því að tala um málefin.
Manafort blés á þetta og sagði að þessar fregnir væri runnar undir rifjum Hillary Clinton, forsetaefnis Demókrata og sagði hann að hún bæri ábyrgð á því að dreifa fregnum um ósætti meðal starfsmanna Trump.
Trump blés einnig á slíkar fréttir og tísti í dag um að sjaldan hefði krafturinn verið jafnmikill meðal starfsmanna sinna.
There is great unity in my campaign, perhaps greater than ever before. I want to thank everyone for your tremendous support. Beat Crooked H!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 3, 2016