Erlent

Lofar því að ríkissjóður styrki þau verkefni sem ESB styrkti áður

Heimir Már Pétursson skrifar
Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands.
Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands. Vísir/EPA
Philip Hammond fjármálaráðherra Bretlands heitir því að ríkissjóður landsins muni styrkja þau verkefni í Bretlandi sem Evrópusambandið styrkti áður. Um er að ræða verkefni upp á um 4,5 milljarða punda eða um 684 milljarða íslenskra króna á ári. Þetta eru meðal annars styrkir til bænda og vísindamanna.

Hammond segir að breski ríkissjóðurinn muni greiða fyrir alla styrki Evrópusambandsins sem taka gildi fyrir haustið. Þá muni styrkir til landbúnaðarins gilda til ársins 2020. Bresk stjórnvöld hafa ekki enn virkjað 50. grein aðildarsamningsins að Evrópusambandinu sem gerir ráð fyrir að það taki tvö ár fyrir ríki að yfirgefa sambandið.

Theresa May forsætisráðherra hefur lýst því yfir að úrsagnargreinin verði ekki virkjuð á þessu ári en leiðtogar Evrópusambandsins hafa sagt að þeir vilji að úrsagnarferlið hefjist sem fyrst til að slá á óvinnu innan sambandsins. Gengi breska pundsins hefur hríðfallið gagnvart helstu gjaldmiðlum frá því Bretar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu að segja sig úr Evrópusambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×