Erlent

Drápu mann sem hugði á hryðjuverkaárás í Kanada innan þriggja sólarhringa

Atli Ísleifsson skrifar
Frá fréttamannafundi kanadísku lögreglunnar fyrr í dag.
Frá fréttamannafundi kanadísku lögreglunnar fyrr í dag. Vísir/AFP
Lögregla í Ontario í Kanada skaut í dag mann til bana sem grunaður er um að hafa ætlað sér að fremja hryðjuverkaárás í landinu innan þriggja sólarhringa.

Lögregla í Kanada greindi frá þessu fyrr í dag og sagði bandarísku alríkislögregluna FBI hafa sent sér myndband þar sem maður sést búa sig undir gerð árásar.

Í frétt BBC kemur fram að lögregla í Kanada hafi fljótt borið kennsl á manninn á myndbandinu, hinn 24 ára Aaron Driver, og haft uppi á honum í leigubíl í borginni Strathoy þar sem hann var drepinn af lögreglu.

Talsmaður kanadísku lögreglunnar, Mike Cabana, segir að talið sé að Driver hafi ætlað sér að fremja sprengjuárás í Kanada. „Þetta var því augljóslega kapphlaup við tímann,“ sagði Cabana á fréttamannafundi nú síðdegis.

Á myndbandinu sem FBI hafði komist yfir sést Driver þar sem hann segist ætla að sprengja sprengju í mikilli mannþröng, en á myndbandinu er hann búin að hylja andlit sitt. Fordæmir hann „vestræna óvini íslam“, vísar til nýlegra hryðjuverkaárása í París og Brussel og lýsir yfir stuðningi við ISIS.

Cabana segir of snemmt að segja til um það hvernig FBI komst yfir myndband Driver.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×