Í viðtali við Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem birtist í Morgunblaðinu í dag sagði hún að eftir viðtal við eiginmann hennar, þar sem Wintris bar á góma, hafi þau sent upplýsingar til umræddra aðila. Þar hefði verið um að ræða ítarleg gögn sem útskýrðu hvernig í pottinn væri búið.
Sjá einnig:Anna Sigurlaug: „Þetta snerist bara um að fella forsætisráðherrann“
„Sigmundur vildi vaða strax í sjónvarpsmennina og óheiðarlega framgöngu þeirra en aðrir töldu ekki rétt að veita þeim slíka athygli. Best væri að leggja bara fram öll gögn og sýna að ávirðingar sjónvarpsmannanna hefðu verið rangar. Það var auðvitað mikið áfall þegar þátturinn var svo sýndur að sjá að það var ekki minnst á svörin frá okkur,“ segir Anna Sigurlaug í viðtalinu.
Í svari fréttafólksins, sem birt var á Facebook, kemur fram að rétt sé að þeim hjónum hafi verið sendur ítarlegur spurningalisti. Fréttafólkinu hafi borist svör sem öll áttu það sameiginlegt að svara ekki þeim hlutum sem spurt var um.
Þá svöruðu þeir sem komu að gerð þáttarins ásökunum einnig. „Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fékk því margítrekuð tækifæri til að útskýra aðkomu sína og eiginkonu sinnar að aflandsfélaginu Wintris Inc, sem hann kaus að gera ekki,“ segir í yfirlýsingunni. Einnig birtu aðilarnir tölvupóstssamskipi sem þeir áttu í við aðstoðarmann Sigmundar Davíðs.