Allir eru æði Magnús Guðmundsson skrifar 26. ágúst 2016 07:00 Listin hefur mikið að gefa okkur. Þegar vel tekst til þá auðgar hún andann, eykur með okkur samkennd og samhug, fræðir, þroskar, bætir og kætir. Listin er því mikilvæg samfélaginu og að sama skapi er samfélagið mikilvægt listinni. Þetta er forsenda þess að samfélagið leggi sitt af mörkum með stuðningi við listsköpun og þá er líka sjálfsagt að ætlast til þess að almenningur eigi greiðan aðgang að listinni. Vonandi sem flestum til góðs og gleði. Það er blómlegt listalíf á Íslandi og af mörgu að taka. Þar á meðal eru alls konar listahátíðir sem byggja á fádæma dugnaði og sköpunarkrafti þeirra sem að þeim standa og njóta til þess oftar en ekki opinbers stuðnings og stuðnings íslenskra fyrirtækja. Ein af þessum skemmtilegu hátíðum er sviðslistahátíðin Everybody’s Spectacular, sem gæti t.d. útlagst Allir eru æði, upp á okkar ástkæru og ylhýru tungu. Þessi hátíð er um margt æðisleg, enda er þar listrænt látæði í hávegum haft. Hátíðin er samansett úr tveimur hátíðum: Reykjavik Dance Festival og sviðslistahátíðinni Lókal. Þessar tvær hátíðir eiga sitthvað listrænt sameiginlegt og svo einnig þá þrá að vera útlenskar hátíðir fremur en íslenskar. Að minnsta kosti gefa þessar nafngiftir það til kynna, auk þess sem hátíðin sér ekki ástæðu til þess að bjóða upp á heimasíðu á íslensku heldur aðeins ensku. Everybody’s Spectacular er alþjóðleg hátíð í þeirri merkingu að hingað koma erlendir listamenn til þess að taka þátt og útlendingar sem vilja sjá og skoða það sem þar fer fram. Að mati aðstandenda er það forsenda þess að nefna sig upp á ensku og bjóða almenningi aðeins upplýsingar á ensku. Íslendingar eru vissulega margir æðislega góðir í ensku, ekki síst yngri kynslóðir, en það breytir því ekki að hátíðin fer fram á Íslandi og með stuðningi íslensks fjármagns. Það má því gera því skóna að hátíðin vilji gjarnan fá íslenska gesti og eiga í samræðu við íslenskt samfélag. Það er því illskiljanlegt og í raun óþolandi að hátíðin skuli velja þá útilokun sem felst í því að vera á ensku fremur en íslensku. Rétt er að taka fram að miðað við efnistök og innihald heimasíðu hátíðarinnar ætti ekki að vera mikill kostnaðarauki af því að hafa hana á tveimur tungumálum. Dæmi um slíkt má sjá hjá Listahátíð í Reykjavík og Jazzhátíð Reykjavíkur. En ef þetta er raunverulega spurning um að velja þarna á milli þá er valið auðvelt. Þá er valið íslenska. Listahátíð sem vill auðga samfélag sitt hlýtur að leitast við að tala til þess samfélags sem hana fóstrar. Íslenska er tungumálið sem við tölum sem fyrsta mál á Íslandi og það er órjúfanlegur hluti af því hvernig við hugsum og eigum í samskiptum frá degi til dags. Íslenska er líka hluti af því hvernig við njótum lista, hugsum um listir og tölum um listir. Það er því óskandi að aðstandendur hátíðarinnar Everybody’s Spectacular átti sig á því að allir á Íslandi sem vilja fylgjast með og njóta lista á Íslandi eiga að geta kynnt sér það sem þar er í boði á íslensku. Þá munu þau líka fljótlega komast að því að íslenska er algjört æði.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. ágúst. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Guðmundsson Mest lesið Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Geðheilbrigðismál og landsbyggðin Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Ólafur Björn Sverrisson Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun
Listin hefur mikið að gefa okkur. Þegar vel tekst til þá auðgar hún andann, eykur með okkur samkennd og samhug, fræðir, þroskar, bætir og kætir. Listin er því mikilvæg samfélaginu og að sama skapi er samfélagið mikilvægt listinni. Þetta er forsenda þess að samfélagið leggi sitt af mörkum með stuðningi við listsköpun og þá er líka sjálfsagt að ætlast til þess að almenningur eigi greiðan aðgang að listinni. Vonandi sem flestum til góðs og gleði. Það er blómlegt listalíf á Íslandi og af mörgu að taka. Þar á meðal eru alls konar listahátíðir sem byggja á fádæma dugnaði og sköpunarkrafti þeirra sem að þeim standa og njóta til þess oftar en ekki opinbers stuðnings og stuðnings íslenskra fyrirtækja. Ein af þessum skemmtilegu hátíðum er sviðslistahátíðin Everybody’s Spectacular, sem gæti t.d. útlagst Allir eru æði, upp á okkar ástkæru og ylhýru tungu. Þessi hátíð er um margt æðisleg, enda er þar listrænt látæði í hávegum haft. Hátíðin er samansett úr tveimur hátíðum: Reykjavik Dance Festival og sviðslistahátíðinni Lókal. Þessar tvær hátíðir eiga sitthvað listrænt sameiginlegt og svo einnig þá þrá að vera útlenskar hátíðir fremur en íslenskar. Að minnsta kosti gefa þessar nafngiftir það til kynna, auk þess sem hátíðin sér ekki ástæðu til þess að bjóða upp á heimasíðu á íslensku heldur aðeins ensku. Everybody’s Spectacular er alþjóðleg hátíð í þeirri merkingu að hingað koma erlendir listamenn til þess að taka þátt og útlendingar sem vilja sjá og skoða það sem þar fer fram. Að mati aðstandenda er það forsenda þess að nefna sig upp á ensku og bjóða almenningi aðeins upplýsingar á ensku. Íslendingar eru vissulega margir æðislega góðir í ensku, ekki síst yngri kynslóðir, en það breytir því ekki að hátíðin fer fram á Íslandi og með stuðningi íslensks fjármagns. Það má því gera því skóna að hátíðin vilji gjarnan fá íslenska gesti og eiga í samræðu við íslenskt samfélag. Það er því illskiljanlegt og í raun óþolandi að hátíðin skuli velja þá útilokun sem felst í því að vera á ensku fremur en íslensku. Rétt er að taka fram að miðað við efnistök og innihald heimasíðu hátíðarinnar ætti ekki að vera mikill kostnaðarauki af því að hafa hana á tveimur tungumálum. Dæmi um slíkt má sjá hjá Listahátíð í Reykjavík og Jazzhátíð Reykjavíkur. En ef þetta er raunverulega spurning um að velja þarna á milli þá er valið auðvelt. Þá er valið íslenska. Listahátíð sem vill auðga samfélag sitt hlýtur að leitast við að tala til þess samfélags sem hana fóstrar. Íslenska er tungumálið sem við tölum sem fyrsta mál á Íslandi og það er órjúfanlegur hluti af því hvernig við hugsum og eigum í samskiptum frá degi til dags. Íslenska er líka hluti af því hvernig við njótum lista, hugsum um listir og tölum um listir. Það er því óskandi að aðstandendur hátíðarinnar Everybody’s Spectacular átti sig á því að allir á Íslandi sem vilja fylgjast með og njóta lista á Íslandi eiga að geta kynnt sér það sem þar er í boði á íslensku. Þá munu þau líka fljótlega komast að því að íslenska er algjört æði.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. ágúst.
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun