Einn efnilegasti körfuboltamaður landsins, Tryggvi Hlinason, æfir nú með A-landsliðinu í körfubolta en uppgangur þessa unga manns hefur verið magnaður.
Tryggvi hefur aðeins æft körfubolta í um þrjú ár en hefur á þeim tíma náð ótrúlegum tökum á íþróttinni.
„Það er geggjað gaman að spila með þessum köllum og mikið sem maður getur lært af þeim. Þeir eru magnaðir og duglegir að kenna mér. Ég er eftir á í mörgu enda búinn að spila körfubolta í stuttan tíma,“ segir Tryggvi.
Hann er sveitastrákur. Nánar tiltekið frá Svartárkoti í Bárðardal og þar er stutt í sveitamjólkina. Beint frá býli.
„Ég drekk alvarlega mikið af mjólk,“ segir Tryggvi en hann er 216 sentimetrar að hæð.
Hlusta má á viðtal Guðjóns Guðmundssonar við Tryggva hér að ofan.

