Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra skilaði Alþingi í dag skýrslunni.
Tillögur nefndarinnar byggja á því að innleidd verði skaðaminnkandi úrræði í stað refsinga þegar fíkniefnabrot eru annars vegar.
Borgar Þór fór yfir nokkur atriði upp úr skýrslu nefndarinnar í beinni útsendingu á Stöð 2 í kvöld.
„Tillaga um að afnema fangelsisrefsingar er hugsuð sem skaðaminnkandi tillaga,“ sagði Borgar Þór.
Helstu niðurstöður nefndarinnar eru meðal annars þessar:
- Lagt er til að gerðar verði breytingar á ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni og þeim verði breytt á þá leið að refsing fyrir vörslu og meðferð ólöglegra vímuefna þegar um neysluskammta er að ræða verði bundin við sektir, þannig að enginn verði dæmdur til fangelsisvistar fyrir slík brot.
- Lagt er til að reglum um sakaskrá verði breytt þannig að sérstaða brota gegn lögum um ávana og fíkniefni verði afnumin. Í því felst að brot sem einungis sæta sekt eru ekki skráð á sakaskrá frekar en önnur sektarbrot.
- Lagt er til að fellt verði úr umferðarlögum ákvæði þess efnis að mæling á tilvist ávana- og fíkniefna „í þvagi“ ökumanns geti, ein og sér, talist viðhlítandi grundvöllur til stofnunar refsiábyrgðar og það eitt áskilið að mæling á blóði ökumanns leiði í ljós að hann hafi fyrir aksturinn neytt ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru.
- Lagt er til að fjölgað verði afeitrunarplássum sem eru tiltæk með litlum sem engum fyrirvara fyrir fólk sem er í stöðugri vímuefnaneyslu, einkum á landsbyggðinni.
- Einstaklingum sem sprauta vímuefnum í æð verði tryggður aðgangur að gjaldfrjálsri nálaskiptiþjónustu.
Sjá viðtal við Borgar Þór Einarsson í myndskeiði.