Erlent

Áhrif Brexit rædd á G20

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, tekur í höndina á Xi Jinping, forseta Kína.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, tekur í höndina á Xi Jinping, forseta Kína. mynd/afp
Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu, Brexit, mun verða með fyrirferðameiri málefnum á dagskrá G20 fundarins sem nú stendur yfir í kínversku borginni Hangzhou.

Theresa May tók sem kunnugt er við embætti forsætisráðherra Bretlands í sumar og er þetta því í fyrsta skipti sem hún er þátttakandi á G20 fundinum. Í dag og á morgun er henni falið það verðuga verkefni að útskýra nánar hvaða þýðingu Brexit kemur til með að hafa fyrir þjóðir heimsins.

Athygli hefur vakið að bæði Bandaríkjamenn og Japanir hafa gefið út yfirlýsingar er varða viðskipti ríkjanna við Breta. Í frétt BBC kemur fram að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hafi fullyrt á blaðamannafundi eftir fyrsta fund sinn við May að hann hafi gert henni ljóst að Evrópusambandið myndi vera í forgangi fram yfir Bretland þegar kemur að viðskiptaviðræðum af hálfu Bandaríkjanna.

Að sama skapi hafa Japanir gefið út fimmtán blaðsíðna skýrslu sem varar við áhrifum Brexit og þeir hafa einnig upplýst May um að Japanir kynnu að skerða viðskipti sín við Breta nema þeir fái að halda sömu fríðindum og fyrir Brexit.

Af öðru sem dregið hefur til tíðinda á G20 fundinum má helst nefna fullgildingu Bandaríkjanna og Kína á Parísarsamningnum um loftslagsmál.


Tengdar fréttir

Atvinnuleysi í Bretlandi minnkar í kjölfar Brexit

Einnig minnkaði atvinnuleysi í landinu eftir að Bretar kusu að yfirgefa Evrópusambandið í júní en nýjustu tölur eru fyrir júlímánuð. Atvinnuleysi í Bretlandi hefur ekki verið minna í ellefu ár og er nú 4,91 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×