Steinunn Ýr Einarsdóttir ætlar að gefa kost á sér í þriðja til fjórða sæti í opnu prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar.
Steinunn er 33 ára, kennari, fimm stúlkna móðir og ritari Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar, að því er segir í tilkynningu frá Steinunni. Hún segist ung hafa hafið afskipti af pólitík og starfað með Ungum jafnaðarmönnum um tíma en fundið sig betur í grasrótinni. Þá segist hún hafa einbeitt sér að jafnréttisbaráttu síðustu ár.
„Ég stend fyrir jöfnuð og jafnrétti og vil búa í samfélagi þar sem við gerum ráð fyrir að allir einstaklingar fái að blómstra óháð kringumstæðum, efnahag eða fjölskyldutengslum. Sé jöfnuður hafður að leiðarljósi endurspeglast það í allri stefnumótun. Ég legg áherslu á mannréttindi, femínisma, lýðræði og umhverfisvernd,“ segir Steinunn.
Steinunn Ýr býður öllum áhugasömum að koma á Hallveigarstaði frá klukkan 17 til 19 í kvöld þar sem Edda Ýr Garðarsdóttir og Eva Brá Önnudóttir munu tala máli ungra kvenna.
