Aron Jóhannsson segir að dómaranum í leik Werder Bremen og Gladbach hafi misheyrst ummæli sín rétt áður en hann fékk að líta rauða spjaldið.
Aron og félagar hans töpuðu leiknum, 4-1, en Aron fékk að líta beint rautt spjald eftir að hafa komið inn á sem varamaður í leiknum.
„Ég öskraði á hann,“ sagði Aron í viðtali við fjölmiðla eftir leikinn og var að vísa til atviks þegar leikmaður Gladbach handlék boltann.
„Ég sagði „Dómari, þetta er fokking hendi!“. En Stieler [dómaranum] misheyrðist og hélt að ég hefði blótað honum.“
Aron sagðist enn fremur hafa reynt að ræða þetta við dómarann og útskýra málið en að hann hafi ekki hlustað á hann.
Ef af líkum lætur verður Aron dæmdur í þriggja leikja bann vegna málsins en til að bæta gráu á svart var þjálfari Werder Bremen rekinn eftir leikinn í gær.
