Kristófer Acox heillaði áhorfendur í Laugardalshöllinni í kvöld með flottri frammistöðu í 84-62 sigri á Kýpverjum. Kristófer var heilt yfir sáttur með eigin leik og liðsins í heild þar sem margir lögðu hönd á plóg.
Kristófer vekur jafnan athygli fyrir mikla baráttu og jafnvel læti á gólifnu sem virtist fara vel í áhorfendur í Höllinni í kvöld.
„Ég tala alltaf um að vera brjálaður, að vera skrímsli. Ég reyni eins og ég get að vera það,“ sagði Kristófer. Hann segist ekki spá mikið í fagnaðarlátum fólksins í stúkunni en elski að spila fyrir fólkið sitt.
Horfði á Berlínarævintýrið í skólanum
Kristófer gaf ekki kost á sér fyrir lokakeppnina í Berlín sumarið 2015 þar sem skólinn hans í Bandaríkjunum gaf ekki leyfi. Það hefur væntanlega verið grátlegt að missa af því ævintýri.
„Ég var bara að fylgjast með þessu í skólanum í tíma. Það er gaman að fá að taka þátt í svona alvöru verkefni núna og við verðum bara að fara alla leið.“
Kristófer, sem er uppalinn KR-ingur, hefur verið í háskólaboltanum vestanhafs í þrjú ár. Hann segir andann í íslenska liðinu mjög góðan.
Besti hópurinn
„Ég held að þetta sé besti hópur sem ég hef verið með. Við tengjum allir mjög vel saman og eins og við höfum þekkt hvern annan í mörg ár.“
Möguleikarnir á móti Belgum séu mjög góðir.
„Við töpuðum fyrir þeim úti svolítið stórt en munurinn er ekki svo mikill á liðinu. Ef við fáum góða stemningu og íslenska brjálæðið þá eigum við góðan séns.“
Kristófer: „Ég tala alltaf um að vera skrímsli“

Tengdar fréttir

Hlynur Bærings: Aðeins spurning hvort ég nái 200 landsleikjum eða ekki
Fyrirliðinn var besti leikmaður vallarins í sigrinum gegn Kýpur. Honum fannst gestirnir ekki í góðu formi.

Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Kýpur 84-62 | Sannfærandi í seinni hálfleik í Höllinni
Okkar menn mæta Belgum í úrslitaleik riðilsins á laugardaginn.