
„Aðrir í stjórnarandstöðunni hafa leyft sér að gagnrýna ýmislegt varðandi þessa búvörusamninga en svo kemur í ljós að þeir eru í raun með þeim. Með hjásetu gáfu þeir málinu brautargengi. Það kom mér svo sem ekki á óvart með Vinstri græn því ég heyrði á málflutningi þeirra að þau voru ekkert á móti þessum búvörusamningum. En það kom mér á óvart að ýmsir hjá Samfylkingunni og Pírötum sem töluðu mjög digurbarkalega sitja svo hjá. Ég skil ekki svona afstöðuleysi í jafn stóru máli,“ segir Björt.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, var eini stjórnarþingmaðurinn sem hafnaði samningunum. „Ég tel að þarna sé engin tilraun gerð til að draga úr þessu ríkisstyrkta landbúnaðarkerfi. Það er annars vegar búið að semja um fjórtán milljarða beingreiðslur á ári næstu tíu árin og hins vegar er verið að tryggja, að mínu mati, hátt í þá upphæð í formi tollmúra.“

„Við teljum eðlilegt að innlendur landbúnaður sé styrktur eins og alls staðar annars staðar er gert. Við vorum ekki ánægð með þennan samning en töldum breytingarnar sem voru gerðar á honum til bóta. Okkur fannst ekki fýsilegur kostur að núverandi samningur yrði bara framlengdur,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Hún segir að núgildandi samningur hefði verið framlengdur um eitt ár ef nýjum búvörusamningum hefði verið hafnað.
Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingar, segir að þingflokkur sinn styðji ekki samningana.
„Það er bara mjög algengt að gera þetta. Ef þú nærð fram einhverju eða það er eitthvað í málinu sem þú vilt ekki segja nei við, þá situr þú hjá. Við fengum í gegnum nefndarvinnuna að það yrði farið strax í endurskoðun.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.