Lögreglan í Vestmannaeyjum rannsakar nú líkamsárás sem átti sér stað í bænum aðfaranótt laugardagsins síðastliðinn. Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, staðfestir þetta í samtali við Vísi.
Jóhannes vildi ekki tjá sig um frétt Stundarinnar um að kona á fimmtugsaldri hafi fundist meðvitundarlaus, nakin og með mikla áverka í húsgarði í Vestmannaeyjum umrædda nótt og verið flutt í skyndi með sjúkraflugi til Reykjavíkur.
Vísir hafði samband við Hrönn Stefánsdóttur, verkefnisstjóra neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis, en gat ekki staðfest að mál hafi komið inn á borð um helgina þar sem hún er stödd erlendis.
Mbl hefur eftir heimildum að gæsluvarðhalds hafi verið krafist yfir manninum en að Héraðsdómur Suðurlands hafi hafnað kröfunni. Úrskurðinum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
