Guðlaugur Victor Pálsson er í liði umferðarinnar hjá Tipsbladet fyrir frammistöðu sína í leik Esbjerg og Randers í dönsku úrvalsdeildinni á föstudaginn.
Victor lék allan tímann á miðjunni hjá Esbjerg og þótti standa sig vel.
Victor hefur leikið átta af níu leikjum Esbjerg í deildinni, þar af sjö í byrjunarliði, og skorað eitt mark.
Hann kom til Esbjerg í fyrra en meiddist illa skömmu eftir komuna til Danmerkur og missti af stærstum hluta síðasta tímabils.
Illa hefur gengið hjá Esbjerg á þessu tímabili en liðið er í þrettánda og næstneðsta sæti deildarinnar með sex stig eftir níu umferðir.
Næsti leikur Esbjerg er gegn Silkeborg á heimavelli í dag.
